Færsluflokkur: Lífstíll
17.12.2008 | 18:44
Sendiherrana heim
Væri ekki góður sparnaður að sameina nokkur sendiráð, selja rándýr hús og minnka flottræfilsháttinn erlendis á vegum utanríkisráðuneytisins. Sendiherrarnir, sem við það missa "brauðið" erlendis koma þá heim og starfa í ráðuneytinu. Á tölvutímum með sífellt bættri tækni þar sem menn "sitja heima" en funda þó með fólki í mörgum löndum, virðist mér alls ekki ástæða til að halda uppi tugum manna erlendis og greiða gífurlegar fjárhæðir fyrir húsakost. Að ógleymdri risnu, sem vegur þungt.
Ráðamenn fá dagpeninga þegar þeir dvelja erlendis á vegum ríkisins auk þess sem kostnaður er að fullu greiddur. Þessu þarf að breyta.
Það er sannarlega hægt að taka til með sparnaðarhnífnum víðar en í heilbrigðiskerfinu. Taka á innlagnargjald og fæðispeninga af sjúklingum. Mér finnst það fráleitt og efa að til lengri tíma litið sé nokkur sparnaður í því. Það verða að sjálfsögðu til nokkur störf og síðan sérstök deild til að halda utan um þetta peningaplokk og stækkar eins og allt annað innan stofnunar. Það kostar! Fyrir utan að þetta mun vafalaust kosta mannslíf. Fátækt fólk veigrar sér við að þiggja innlögn.
Og ég leyfi mér að endurtaka orð Kristínar Á. Guðmundsdóttur formanns Sjúkraliðafélags Íslands, en hún "segir lög brotin á sjúklingum með fyrirhuguðum niðurskurði í heilbrigðiskerfinu. Ekki sé búið að lýsa yfir neyðarástandi sem sé forsenda þess að taka lög úr sambandi. Hún segir heilbrigðiskerfi Íslendinga kastað sextíu ár aftur í tímann í einu vetfangi og ekkert bendi til þess að það sé tímabundin aðgerð. Ráðamenn hafi hinsvegar tryggt að sú launalækkun sem þeir ætla að taka á sig sé einungis tímabundin."
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.12.2008 | 22:22
Ljóð og líf
Fjallið Skjaldbreiður
Jónas Hallgrímsson:
Heiðabúar! glöðum gesti
greiðið för um eyðifjöll.
Einn ég treð með hundi og hesti
hraun og týnd er lestin öll.
Mjög þarf nú að mörgu hyggja,
mikið er um dýrðir hér!
Enda skal ég úti liggja,
engin vættur grandar mér.
Væri ekki gott að vera einn á ferð með hesti sínum og hundi. Laus við sárindi og ömurleika Íslands nú?
"Týnd er lestin öll" og hvað með það?
Svik, svindl og prettir lestarmann samtímans, sem upp komst haustið 2008 er alveg nóg til að vera fegin að hafa þá ekki með í för framar. En er það svo? Hvað vitum við um það sem er að gerast í húmi nætur. Í skugga háttsettra manna, sem líta framhjá glæpsamlegu verklagi manna sem vilja halda auði sínum og völdum. Hvers vegna er enn haft við kjötkatlana fólk, sem við getum ekki treyst? Og hvers vegna er ekki unnið fyrir opnum tjöldum? Hvað með Birnu, Elínu, Sigurjón, Sigurð, Bakkabræður, Bónusprinsinn, já og manninn sem var handtekinn og látinn laus samdægurs, þrátt fyrir grun um stórfelld fjársvik? Og alla þá sem hafa svkið okkur, þjóðina. Stím, þetta skítuga fyrirtæki er enn eitt áfallið. Enn eiga eftir að koma ljótir hlutir fram í dagsbirtuna. Og það svíður að sjá.
Það eykur ekki trúverðugleika í garð ríkisstjórnarinnar að sjá utanríkisráðherra skipa vinkonu sína sendiherra á sama tíma og þjóðinni blæðir og hæfileikaríkt atvinnulaust fólk fær ekki einu sinni færi á að sækja um þessa vinnu. Og hvað með gjörðir Baldurs ráðuneytisstjóra? Mátti hann bjarga eigin fjármunum? Var það bara allt í lagi? Eða gerði hann það? Er það í rannsókn?
En í fallinu eru möguleikar. " Mjög þarf nú að mörgu hyggja". Hve satt er það.
Þó erfitt sé að sjá hvað er til ráða má horfa til þeirra mörgu, sem láta ekki bugast og koma fram á vettvanginn með góðar hugmyndir og bjartsýni að vopni. Höllum okkur að þeim og trúum á framtíðina.
Áfram Ísland.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.12.2008 | 23:35
Alnæmissamtökin 20 ára í dag
Samtökin eru 20 ára í dag.
Samtökin voru stofnuð 5. desember 1988, tilgangurinn með stofnun þeirra var að auka þekkingu og skilning á alnæmi og styðja sjúka og aðstandendur þeirra.
Þeir sem að stofnun þessara samtaka stóðu var fólk sem vann eldhugastarf. Fordómar og hræðsla var mikil og tortryggni gagnvart samkynheigðum mönnum ráðandi.
Ég varð þeirra gæfu aðnjótandi að vinna að stofnun þessara samtaka með frábæru fólki. Vinnuaðstaða mín var í Heilsuverndarstöðinni við Barónsstíg og yfirmaður minn var borgarlæknirinn í Reykjavík, Skúli Johnsen læknir, sem er látinn fyrir fáeinum árum. Borgarstjórinn í Reykjavík, Davíð Oddsson studdi dyggilega við starf mitt og veitti mér brautargengi. Báðum þessum mönnum er ég þakklát fyrir skilning og áhuga á málefninu.
Í Heilsuverndarstöðinni kynntist ég mörgum frábærum manneskjum, sem eru mér eftirminnilegar.
Samvinna við Samtökin '78 var afbragðs góð og ég gerðist félagi og sótt fundi þar sem mér gafst tækifæri til að ræða við fólk um þessi málefni. Þorvaldur Kristinsson formaður var sérstaklega þægilegur maður í samstarfi og okkur samdi ágætlega. Reyndar þykir mér alltaf vænt um samtökin og fólkið sem þar hefur unnið frábært starf. Á Lindargötunni í gamla, góða húsinu átti ég margar góðar stundir með góðum félögum og skemmtilegum.
Ég gríp hér niður í grein, sem við Guðni Baldursson skrifuðum í Morgunblaðið 5. des. 1989 á ársafmælinu:
"Á útmánuðum 1988 kom saman fólk sem starfaði á einn eða annan hátt í tengslum við HIV-smitaða einstaklinga og alnæmissjúka. Það var einróma álit meðal þess að mikil þörf væri á félagi sem styddi við þá sem teljast til þessa hóps. Í apríl kom hingað í heimsók á vegum Rauða krossins ungur alnæmissjúklingur, Bandaríkjamaður, að nafni Richard Rector.
Hann hélt fyrirlestur á Hótel Loftleiðum um sjúkdóminn alnæmi og félagslegar afleiðingar hans. Þarna gafst fundarmönnum tækifæir til þess að skrá sig til þátttöku í að stofna samtök um alnæmisvandann.
Stofnfundurinn var svo haldinn þann 5. desember 1988."
Á þessu tímamótum hugsa ég til þess fólks sem ég vann með og reyndi eftir bestu getu að styðja í þess veikindum. Sterkar og heilsteyptar manneskjur með frábært viðhorf til lífsins og dauðans. Af þeim lærði ég mikið. Og hef aldrei gleymt þessum góðum drengjum.
Margir komu að þessu málefni en ég verð að nefna Öryrkjabandalag Íslands og Odd Ólafsson lækni, sem var mér hvatning og hjálp í starfinu. Landlæknir Ólafur Ólafsson, læknarnir Haraldur Briem, Sigurður Guðmundsson og Kristján Erlendsson voru sterkir félagar.
Að öllum ólöstuðum var þó Guðni Baldursson minn besti félagi í samtökunum og okkar samvinna var mjög góð. Hann var traustur og nákvæmur og alltaf tilbúinn að leggja lið.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 23:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.12.2008 | 23:03
Hestarnir
Hestarnir mínir eru í Borgarfirðinum, í góðum í haga hjá góðu fólki. Það skiptir miklu máli að vita af vinum sínum í góðum höndum. Í sveitinni verða þeir út desember. Um það samdi ég við bóndann og taldi hann það lítið mál. Fínn náungi! Eftir áramót tek ég þá á hús ef allt gengur eins og maður gerir ráð fyrir. Sjö, níu, þrettán.
Það er alltaf tilhlökkunarefni að fá þá heim. En um leið er mikil vinna framundan og maður er óneitanlega bundinn. Ég er einyrki og fer því alla daga til að sinna þeim. Morgungjöfina hef ég þó fengið gott fólk til að sjá um fyrir mig gegn sanngjarnri borgun. Það er fínn féagsskapur þarna í hesthúsahverfinu og gott fólk, sem deilir þessari elsku og áhuga á hestum með mér. Og fólkið sem kemur til að vinna fyrir mig, járningamaðurinn, dýralæknir, bóndinn sem selur mér hey,og einhvern þarf ég af og til, til að skipta um möl í gerðinu og svo auðvitað samskipti við afgreiðslufólkið í hestavörubúðunum.
Tamningafókið, sem hjálpar til að við að kenna hestum góða kurteisissiði og penheit við eigandann, reiðkennarann,sem tekur mann sjálfan í gegn hestunum til mikils gagns. Bendir á kæki og vitleysur og kemur parinu til að ná saman. Knapi á hestbaki er kóngur um stund en þarf að kunna ýmislegt til að svo verði. Best þegar báðir eru kóngar, knapi og hestur.
Þá má líka minnast á mennina sem koma til að tæma taðþróna og gæjana sem ryðja snjó þegar þess gerist þörf. Samskipti við áhaldahúsið í Garðabæ er ágætt.
Félagið Andvari gott og nú hefur staðið til að sameina það Gusti. Það er reynar félagið mitt en ég hóf minn feril (!) í Glaðheimum. Var þó smá tíma í B-tröð og síðan Faxabóli í Víðidalnum.
Allt þetta safnast saman og gerir þetta hugðarefni svo ótrúlega líflegt , hressandi og gefandi.
Hestaferðir á sumrin eru sérstakur kapituli.
Erfitt hefur verið undanfarin ár að venjast vinnuvélum og stanslausri umferð malarflutningabíla á svæðinu. Uppfylling Kjóavalla hefur tekið á taugarnar hjá okkur mörgum. Og á fleiri en einn veg. Ákafi Kópavogsmanna að byggja hefur sannarlega sett sitt mark á svæðið við Elliðavatn. Og skógarmisþyrmingin í Heiðmörk fór ekki framhjá manni þar sem flutningabílar óku með farm eftir farm af fallegum trjám í átt til Hafnarfjarðar um árið. Og ekki var gáfulega að verki staðið að setja heila fótaboltahöll við rassinn á hestunum í Heimsenda. Alveg ótrúlegur yfirgangur.
Nú verður sennilega rólegra á þessu indæla svæði. Segja má að fátt sé með öllu illt.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.12.2008 | 14:30
Silkitoppa
Enn um fugla.
Mér fannst vanta einhverjar upplýsingar um þessa ágætu fugla, silkitoppur, sem sjást á myndinni í síðustu færslu. Eftirfarandi fróðleik tók ég því úr ágætri bók Jóhanns Óla Hilmarssonar: Íslenskur fugla vísir.
Silkitoppa ( Bombycilla garrulus): Verpur nyrst í barrskógabelti Skandinavíu, Rússlands, Siberíu og N-Ameriku. Stórir hópar flakka annað slagið út fyrir hefðbundin vetrarheimkynni sín, þ.á.m. til Íslands.
Held bara að nú séu slíkir flakkarar á ferð hérlendis og þeir setja lit á tilveruna með "skrautlegum fjaðurham sínum" eins og Jóhann Óli segir ennfremur.
Algjörar dúllur þessar elskur.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
30.11.2008 | 19:20
Fuglar
Í garðinn við húsið mitt koma daglega góðir gestir. Skógarþrestir, starrar, svartþrestir, auðnutittlingar, músarindlar láta sjá sig, gráþrestir hafa sést, hettusöngvarar og silkitoppur. Krummi kemur stöku sinnum og grípur smávegis í gogginn og sest á þakbrúnina og snæðir. Veitingar eru bornar fram fyrir þessa góðu gesti: epli og sólblómafræ. Silkitoppurnar eru fallegir og skemmtilegir fuglar og læt ég eina mynd fylgja hér, sem Kristinn Vilhelmsson tók (hann tók líka þær myndir aðrar, sem hér hafa verið settar inn).
Ársrit Fuglaverndar nr. 5 var að koma út. Gullfallegt rit sem allir félagar í Fuglavernd (Fuglaverndarfélag Íslands) fá sent heim. Það er alveg þess virði að gerast félagi til að fá þetta rit.
Auk þess eru margar fuglaskoðanir á vegum félagsins og fræðandi fyrirlestrar, sem gaman er að hlusta á. Mæli með þessu góða félagi sem eins og segir á heimasíðu þess: Fuglaverndarfélag Íslands var stofnað árið 1963. Helstu hvatamenn að stofnun þess voru Björn Guðbrandsson, Úlfar Þórðarson, Richard Thors og Þórður Þorbjarnarson. Saga félagsins og starf fyrstu þrjá áratugina snérist að miklu leyti um verndun arnarins, afkomu hans og útbreiðslu. Lesið meira á síðunni fuglavernd.is
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.11.2008 | 23:01
Sökkvandi Ísland og krafa um kosningar
Þó gott sé að gleyma sér við lestur ljóða blasir kaldur veruleikinn við og nú er borgarafundur í Háskólabió. Menn heimta kosningar, Gunnar Sigurðsson stendur þar keikur ásamt fleiru ágætu fólki. Mikið er ég ósammála þessari kosningakröfu. Alls, alls ekki kosningar núna. Svo gripið sé til sjómannamálsins, sem svo vinsælt, þá segi ég: þjóðarskútan er í brotsjó og að sökkva. Vilja farþegar þá skipta út skipstjóra, stýrimönnum, vélstjóra og vönum hásetum og fara að leggja á ráðin um hverja eigi að velja til að bjarga skipinu. Taka tíma og krafta í það á meðan hlýtur allt að reka á reiðanum. Mér virðist þetta vanhugsuð krafa. Hins vegar vil ég að stjórnin taka á sig rögg og forði okkur frá því að þurfa að horfa upp á auðmenn setja sig í stellingar til að endurtaka leikinn. Sigurður Einarsson vill kaupa rústir Kaupþings í Luxemborg, Tryggingamiðstöðin er í þeirri stöðu að svo virðist sem gróðapungar ætli sér að leika gamla leikinn sinn enn og aftur. Á bloggsíðu Önnu vélstýru http://velstyran.blog.is/blog/velstyran/ er góður pistill um þetta.
Þá tel ég mikilvægt að hreinsa til í yfirmannsstöðum ríkisbankana og þar sett inn fólk sem er treystandi. Fáránlegt er að Birna Einarsdóttir sé bankastjóri. Konan sem man ekki sín eigin fjármálaumsvif, Elín Sigfúsdóttir á sömuleiðis alls ekki að sitja í bankastjórastól. Og menn sem unnu við allt ruglið og eru enn að störfum, hver er hugsunina með þessu. Og hvernig ætli hinum almennu starfsmönnum bankana líði að horfa upp á þessi ósköp?
Geir Hilmar er heiðarlegur maður og ætti að vera hægt að treysta honum til að leiða þjóðina í gegnum þessar hroðalegu hremmingar. Hann mætti gjarnan segja okkur meira um hvað er að gerast. Auk þess held ég að hann sé fullfær um að taka ákvarðanir. Held að hann sé að komast á skrið svo um munar.
ISG er skelegg kona og getur tekið af skarið. Hún gerði þó eina algjöra kórvillu með að ráða vinkonu sína sem skrifstofustjóra og sendiherra eftir að verkefnum þeirrar konu lauk í utanríkisráðuneytinu. Það er slæm ákvörðun hjá Ingibjörgu. Þegar ráðuneytum er gert að spara! Nær væri að fækka sendiráðum.
Hins vegar ætti ekki að segja upp fólki á LSH. Það er miklu betra fyrir alla að halda fólkinu í vinnu, tryggja öryggi í vinnubrögðum á spítalanum, fólkið þarf ekki að fara á atvinnuleysisbætur og upplifa allar þær hörmungar sem fylgja atvinnumissi. Sem kosta þegar á allt er litið þjóðina mikið. Þar sem því verður við komið skal leggja áherslu á að halda mannskapnum í vinnu.
Áfram Ísland!
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.11.2008 | 21:56
Frá vitund minni til vara þinna
Steinn Steinarr Tíminn og vatnið 10. Það er gott að gleyma sér við ljóðalestur. |
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 21:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.11.2008 | 17:17
Darri frá Kanastöðum
Það er kominn hvolpur á heimilið. Eins og það hafi ekki verið nóg fyrir að tveir heimiliskettir stjórni lífi mínu fyrir utan aðalstjórnendurna, hestana. En þeir eru nú ekki á heimilinu nema óbeint. Alltaf í huga manns, þessar elskur (kaupa hey fyrir hestana, vantar ekki nýja gúmmimottu fyrir Aðalbjörn, þarf ekki að gefa Geisla extra vítamín í vetur o.s.frv.) Aftur að hvolpinum sem heitir Darri og er sonur Pjakks og Snotru, sem búa í Landeyjum. Faðir hans á Álfhólum en móðir á Kanastöðum. Þar kom hann í heiminn þann 10. september s.l. Darri er því kenndur við Kanastaði. Hann á átta systkini, þar af tvær tíkur. Þetta eru íslenskir fjárhundar að mestu en örlítið Border Collie blóð rennur í æðum. Darri er afskaplega skynsamur hvolpur og ljómandi fallegur. Hann var hjá dýralækni um daginn og vóg þá 4,8 kg. Hann fékk tilskyldar sprautur og ormalyf og á að koma aftur eftir 3-4 vikur. Dýri sagði að hann væri alveg rosalega fallegur og mkið krútt. Og flottur! Er enn með grobbskjálfta. Já best að setja mynd af honum til að sanna mál mitt og það að dýralæknirinn er ekki að ýkja
.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
19.11.2008 | 22:03
Innherjavitneskja
Skrýtið, skrýtið. Baldur ráðuneytisstjóri sat fund þar sem staða bankanna var til umræðu nokkru fyrir hrun. Baldur seldi hlutabréf í Landsbankanum skömmu síðar. Hvað segir forsætisráðherra við þessu: Alveg eðlilegt. Fóík hefði átt að geta getið sér þess til eða einhvern veginn þannig held ég svar hans hafi hljómað. " Baldur vissi ekkert meira en aðrir". Ég er hrædd um að Baldur hafa farið yfir mörkin: Lög og reglur. Verður Baldur ekki að sæta rannsókn gjörða sinna? Þetta átti forsætisráðherra að sjá í hendi sér. Og setja Baldur í biðstöðu.
Auk þessa vil ég benda á, að það er óþolandi að hafa bankastjóra í bönkunum okkar sem ekki eru trúverðugir. Konurnar tvær, Birna Einarsdóttir og Elín Sigfúsdóttir eru ekki trúverðugar. Auk þess á Edda Rós Karlsdóttir ekki að vera álitsgjafi. Hún er langt frá þvi að njóta trausts. Og allir karlarassarnir, sem enn starfa við bankana og fá skrifstofu. laun og bílastæði. Burt með þá.
Krafan er: Hrein borð og heiðarlegt fólk í bankana okkar.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)