Færsluflokkur: Lífstíll

Illþolandi ástand

 

Hvað er eigilega að gerast með þessari litlu þjóð. 

Útrásarbjánarnir  falla nú hver um annan þveran inn i mjúkan faðm fyrirgefningar syndanna.  Fá starfið sitt áfram á sílfurbakka og mega búast við að eignast fyrirtækin sem þeir eyðilögðu og fá milljarðaafskriftir á gullbakka.

Hvað halda menn að þjóðin þoli þetta óréttlæti lengi?

Já hve lengi í ósköpunum? Ólafur, Finnur, Bakkavararbræður, Bónusfeðgar, Íslenskir aðalverktakar,   Wernersystkin, bankamenn eins og Sigurjón, Sigurður Einarsson. Bjarni Ármannsson, Pálmi, Nóatúnsbarnafólkið og allt þetta gráðuga fólk.

Almenningur í þessu landi þarf að standa skil á hverri krónu.

Ellilífeyrisþegar og öryrkjar eru sviptir hverri krónu sem mögulega er hægt að hafa af þeim.

Stefna ríkisstjórnar Íslands virðaist vera sú að hækka skatta og álögur af einstakri óbilgirni, án tillits til þess að fólk á sumt hvert varla til hnífs og skeiðar lengur.

Atvinnulífið er í molum.  Menn eygja hvergi von.

Óhófleg uppbygging sem var látin líðast kemur nú alltof mörgum í koll.

Vinnuvélar stand ónotaðar og skuldsettar í hundraða tali.  Eigendum eru allar bjargir bannaðar.

Verslanir sem smám saman fóru að reiða sig á þessa þennslu eru nú sem þöglar grafir.  Varla kjaftur sem á erindi til viðskipta.

Skattaálögur og hátt matarverð bindur hendur fólks og kemur í veg fyrir að menn geti staðið í framkvæmdum á heimilum sínum.  En eimitt slíkt gæti komið einhverjum fyrirtækjum af stað og liðkað um í þessari hræðilegu frosnu stöðu.

Álögur á eldsneyti eru himinháar en ríkisstjórnin ber því ekki við að lækka þær.

Það er hvergi komið til móts við fólkið í landinu.

En vargarnir sem létu græðgina ráða öllum sínum gjörðum, þeir fá mjúka lendingu og fyrirgefningu skuldanna.

Mér virðist við búa við algjört stjórnleysi.

Það er hræðilegt þegar einmitt styrk hönd og skynsemi er það sem þjóðin þarfnast.

 


Búmmerang

Hvers vegna í ósköpunum lét "Jói í Bónus" birta þetta ömurlega viðtal við sig í Dv?

Við eru  áskrifendur að DV og höfum verið það mörg ár.  Blaðið er á margan hátt nauðsynlegt á íslenskum markaði.  Og blaðamenn þess hafa staðið sig sérlega vel.  Kjarkmikið fólk. 

Viðtalið ofangreinda er hreinlega óþægileg lesning.  Svo augljós tilraun til blekkinga.

Væl og sérlega vond tilraun til að  ná samúð út frá krabbameini/veikindum.

Þetta ömurlega viðtal varð til þess að nú viljum við ekki lengur að versla í Bónus.

Hvers vegna ættum við að láta peningana okkar  renna í þessa viðbjoðslegu hít?

Auk þess ætlast ég til þess að bankinn minn,  Búnaðarbankinn sýni þessum mönnum, Jóhannesi og Jóni Ásgeiri að nú er komið að leiks LOKUM.

Asnalegar nafnabreytingar bankanna eru hreinlega óþolandi. 

 Mjög til að minnka traustið á þeim.

 

Ég hef fengið af því nóg,

 oft með sára lófa

út á lífsins ólgusjó

ein á bát að róa.

 

Ekki á snekkju heheheheh!

 


Hve lengi getum við þolað svikamyllusögur?

Úr pistli Marinós G.  Njálssonar http://marinogn.blog.is/blog/marinogn/  :

" Ég verð að viðurkenna, að ég er orðinn ákaflega þreyttur á þessum svikamyllusögum.  Ég er orðinn ennþá þreyttari á öllum þeim sem hafa komið fram og réttlætt ruglið.  Það er út í hött að fá lán til að greiða út arð.  Það er út í hött að kaupa skuldlaust fyrirtæki af sjálfum sér og skuldsetja það fyrir raunvirði þess.  Það er út í hött að tvöfalda verð á fyrirtæki á nokkrum mánuðum til þess eins að ná í viðbótar aur.  Alveg sama hvar er komið niður, alls staðar blasir bullið við.  Og síðan á að leyfa þessum sömu aðilum að eignast gömlu svikamyllufyrirtækin sín eftir skuldahreinsun.  Það þarf mikla viðskiptaheimsku til að búa yfir svona hroka og græðgi.  Átta menn sig ekki á því að þeir glötuðu mannorði sínu og það verður ekki svo auðveldlega unnið aftur.  "

Þetta eru orð í tíma töluð.   Ofboðslega er ég sammála Marinó.  Hann er frábær og hans málflutningur.  Þakka honum óþreytandi orku og dugnað í þágu okkar allra.

Eiginlega er erfitt að trúa því að menn hafi tapað sér svona gjörsamlega eins og raun ber vitni. Það er eins og fólk hafi  gjörsamlega misst jarðtengingu.  Svikin, svindlið, leynimakkið, spillingin... allt þetta er svo langt frá því sem við eigum að venjast í eðlilegu lífi. Litla Ísland, sem er svo óskaplega nýlega stigið út úr sveitinni yfir í kauphallir, banka og fjármálamarkaði .  Rétt stigið út úr torfkofunum.  Og yfir í glehallir sem blasa nú við, kaldar og óhugnanlegar.

Alltof margir virðast hafa skellt sér yfir í svikin til að græða.  Algjörlega án þess að hugsa um afleiðingarnar og um framtíðina hér á landinu okkar.

Menn náðu yfirráðum yfir góðum, blómlegum fyrirtækjum og átu sig í gegnum þau eins og viðjóðslegir innyflaormar.  Þvílíkir andstyggðar ræflar.

Þetta eru hræðilegir tímar sem við göngum í gegnum nú. 

Vonandi fáum við skýrsluna vondu sem fyrst.  I

Það verður verra að fresta því að gera þá ljótu sögu opinbera.

Hættulegra.

 


Myntkörfulán vs. kúlulán

Af hverju í ósköpunum tók ég ekki kúlulán í stað þess að taka skitið myntkörfulán.  Milljarðar vs. 1, 5 milljónir.  Svo miklu einfaldara að afskrifa milljarðana. En  myntkörfulánið gæti dugað langt yfir endalok þessa lífs  og jafnvel þess næsta.  Afkomendur okkar taka bara við að borga.

Undarlegt að horfa á þessa hluti gerast fyrir framan augu okkar almennings í landinu.  Sami skíturinn virðist vera að endurtaka sig.  Sama fólkið og hjálpaði til að setja okkur í ævarandi skömm og skuldasúpu fær margar milljónir fyrir að vinna "fyrir okkur".  Og sumir kunna ekki einu sinni að reikna tekjur sínar úr evrum í íslenskar krónur.

Fólk þetta situr í húsum sínum óáreitt meðan gengið er með mikilli hörku að hinum almenna borgara.

Þeir sem voru svo ólánsamir að kaupa lóðir í Reykjavík fá ekki að skila þeim.

Svikahrappar fá fyrirtæki á silfurfati og enginn skilur hvert þeir sækja peninga. 

Af hverju þurfa þeir ekki að gera grein fyrir sínum málum. 

Hvers vegna er ekki beitt hörku við þessa lúða. 

Menn brjóta upp lás og ráðast inn í skuldsetta íbúð.  Eigendur eru nú í Noregi.  Þar vantar ekki hörkuna.  Heilar 15 milljónir voru boðnar í þessa eign.  Gríðarlega er þetta mikilvægt miðað við alla milljarðana sem eru afskrifaðir fyrir andstyggðarpakkið, sem gerði okkur þessa skömm.

Hvað er nú í gangi?

Og ríkisstjórnin sem lofaði gagnsæi er haldin leynisýki.  Ekkert má vitnast núna en kannski seinna.  Eða hvað?


Dagur í lífi konu

Enn einn afmælisdagur lítur dagsins ljós.  Það er ánægjulegt að fá að líta það ljós.  Hvert ár hefur sinn sjarma.  Ennþá!  

Verra verður ef maður lifir það að þurfa á sjúkraplássi á stofnun að halda.  Þá verður ekki svo gaman að vera til.  Maður er metinn, skoðaður og merktur fær/sjálfbjarga eða þannig hvort sem það er rétt eða rangt.  Peningarnir stjórna.  Heim með þennan/þessa hvort sem manneskjan er sjálfbjarga eða ekki.  Svona er Ísland í dag.

En nú að öðru.  Þetta er mitt val á ljóði dagsins:

Enn nærist elskan sanna,

enn kærleiks funinn brennur,

enn leiftrar ástar tinna,

enn kviknar glóð af henni,

enn giftist ungur svanni,

enn saman hugir renna,

enn gefast meyjar mönnum,

menn hallast enn til kvenna.

(Páll Vídalín 1667-1727, dróttkvæði

Hef lengi haft dálæti á þessu ljóði.  Enda er það fullt af þrótti, von og fyrirheitum 

Lífið heldur áfram.  Húrra fyrir því. 

Já og húrra fyrir Íslensku þjóðinni sem stendur keik í lífiins ólgusjó.  Þróttmikil og sterk.  Við munum sigrast á þessum raunum.  Verðum að velja gott fólk til að halda utan um mál okkar og láta ruglugræðgisdallana ekki komast upp með að "eignast" aftur fyrirtæki og verslanir.


Fallegt ljóð

Er í rómantísku stuði eins og svo oft áður.  Þetta ljóð sem hér fylgir á eftir er eftirlætisljóð. Það er eftir Hannes Pétursson:

 

Á bláum skógum draumanna

í dölum svefnsins

þar skulum við mætast

meðan þú ert í burtu

og setjast undir krónurnar

sem krydda blæinn sætast.

 

Á bláum skógum draumanna

í dölum svefnsins

þar skulum við gleðjast

þangað til þú kemur.

Þá gleymir hvorugt ástinni

og engin þörf á að kveðjast.

Afskaplega þykir mér vænt um þetta ljóð. 

Og mér þykir vont að kveðja.


Kaldir dagar

Það hefur verið kalt að undanförnu.  En fallegt.  Og bjart.  Sem er ekki verra.  Raunar gott fyrir sálina.

Enn burðast ég við að fylgjast með umræðunni og lesa blöðin, lesa bloggið og hlusta á útvarp, sjónvarp og síðast en ekki síst hlusta á fólkið sem ég hitti og spjalla við.

Allir eru orðnir uppgefnir á Icesafe.  Er það nokkur furða?  Hver heldur út annað eins kjaftæði og önnur eins vinnubrögð og alþingi okkar hefur viðhaft.

Best að segja ekki meira um það mál nú.

Þjóðin horfir nú á Ólaf Ólafsson halda eign yfir Samskip.  Þvílík andstyggð.

Hagar bíða örlaga sinna og þau munu sennilega verða í faðmi Jóhannesar og Jóns Ásgeirs.  Feðgarnir sem virðast ekki hafa neina samvisku.

Skýrslan ógurlega vofir yfir okkur.  Það virðast alltaf hægt að lengja biðina vondu.

Konan sem er forsætisráðherrann okkar er alltaf að skora í skrýtilegheitum.  Hún laumast, veitir ekki viðtöl og er ósýnileg.  Lætur fjármálaráðherra tala en hefur sjálf svoooo mikið að gera að ekki er tími til neins.

DV stendur sig vel en ég verð að viðurkenna að ég hef varla þrek til að lesa nógu gaumgæfilega það sem blaðið hefur fram að færa.  En þvílík spilling hefur þrifist á meðal okkar undanfarin ár.  Er ekki full ástæða til að taka til hendi og losa okkur við þá sem stóðu að svindli og sukki, græðgi og gerræði?

Spilltir alþingismenn eiga að segja af sér þegar þeir eru staðnir að fjármálamisferli.  Formenn flokka eiga ekki að taka með silkihönskum á slíku.  Oft var þörf en nú er nauðsyn.

Lífið er samt bara ágætt.  Vonin er alltaf björt og góð um betra líf og blóm í haga.  Já og menn eiga von á góðum grasvexti í sumar.  Ekki er það verra fyrir grasæturnar okkar.  Hnegg, hnegg og svo framvegis.


Hvers vegna Friðrik?

Væri ekki skynsamlegra að setja minna umdeildan mann í þessa stöðu?

Friðrik hefur verið forstjóri Landsvirkjunar um árabil. 

Landsvirkjun er fyrirtæki hvar menn  skiptast í fylkingar með eða móti. 

Friðrik er litaður af sínum störfum í þágu Landsvirkjunar.  Hann nýtur ekki trausts eftir það sem á undan er gengið í vinnunni hjá því fyrirtæki.

Er ekki nóg af hæfum manneskjum í þessa stöðu? 

Hvers vegna í ósköpunum þarf að ráða mann, sem nýtur alls ekki trausts?

Nú  er mikilvægt að sjá ný andlit og nýja starfskrafta.  Þá er ég ekki að tala um að allir þurfi að vera nýútsprungnir úr háskóla.

Gefa á nýjum manneskjum tækifæri til að vinna í sem flestum störfum þar sem endurnýjunar er þörf.


mbl.is Friðrik Sophusson formaður ÍSB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kröfur veruleikafirrtra manna

Menn gera kröfur í þrotabú Kaupþings.  Þeirra á meðal fyrrverandi starfsmenn.  Einn slíkur gerir kröfur um 244 milljónir. 

Ná þessir menn ekki jarðsambandi ennþá?

Finna þeir ekki að laun þeirra fyrir hrun voru gjörsamlega út fyrir allt velsæmi og alls ekki í takt við það sem eðlilegt getur talist.

Og hvar er ábyrgðin mikla?  Á hvers öxlum hvílir hún núna?:  Íslensks almennings.  Ekki fékk það fólk sérstaklega greidd há laun fyrir gríðarlega mikla ábyrgð.

Nú er almenningur látinn gjalda fyrir ósómann.

Lán er algjörlega sett á lántakendur.  Lánveitendur eru gjörsamlega stykkfrí.  Þó þessi "lán" séu komin langt fram úr öllu sem fólk samdi um í góðri trú.  Og með sérstaklega vinsamlegum leiðbeiningum bankasérfræðinga.

Hví ættu lánveitendur að sleppa algjörlega frá þessu hruni meðan þeir sem tóku lán eru látnir blæða  já og sumum alveg út?

Lýðræði? 

Vituð þér enn eða hvat?


Litli, fallegi Æseifur Snær

 

Hann dafnar vel, fyrsta barn  ársins.  Nafn hans er Æseifur Snær.  Hljómfagurt og grípandi. :

Fyrsta barn ársins

Æseifur litli verður fóstraður á stjórnarheimilinu fyrst um sinn.

Fyrsta barn ársins kom í heiminn þegar tæp sekúnda var liðin af árinu 2010.

Barnið er skilgetið afkvæmi kreppunnar og leynilegra erlendra kröfuhafa – og var það skilið eftir í lítilli myntkörfu á tröppum stjórnarráðsins snemma í morgun.

Það hefur hlotið nafnið Æseifur Snær.

http://baggalutur.is/

 

Áhrifarík frétt á síðu Baggalúts.  Kom mér í gott skap og gerir mér auðveldara að lifa þessa vitleysu af.

Forræðisdeilan er hafin fyrir alvöru og frændi á Bessastöðum blandar  sér í deiluna svo undir tekur í fjöllunum.

Frænkur og frændur í öllum flokkum snúast eftir því sem andríki þeirra gefur og illkvittni þeirra leiðir.

Litli Æseifur Snær brosir við heiminum og vill öllum vel.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband