Eftirfarandi er tekið af síðunni : http://malbein.net/ Gísli Ásgeirsson hefur orðið:
Vegna stefnu Pálma í Fons gegn Svavari Halldórssyni fréttamanni RÚV geri ég hér með orð Svavars (fréttatexta) að mínum og hvet alla til að birta eftirfarandi fréttir:
Frétt 1:
Pálmi Haraldsson notaði skuldaviðurkenningu frá Baugi sem veð þegar hann fékk tveggja og hálfs milljarða króna lán frá Glitni rétt fyrir hrun. Baugur og eigendur hans voru ráðandi hluthafar í Glitni og viðskiptafélagar Pálma. Bankinn hefur ekkert fengið greitt og peningarnir eru týndir.
Pálmi Haraldsson í Fons kom víða við í góðærinu. Hann átti Iceland Express, Skeljung, Securitas, flugfélagið Sterling og hluti í FL Group og bresku verslunarkeðjunni Iceland. Meðal helstu viðskiptafélaga hans var Jón Ásgeir Jóhannesson.
Hann átti meðal annars Gaum og réði ríkjum í Glitni.
Fons, félag Pálma, átti hlutabréf í Högum og Debenhams sem Pálmi seldi félaga sínum Jóni Ásgeiri í Baugi, snemma árs 2007. Á móti fékk Pálmi skuldabréf á Baug. Allir pappírar virðast hafa verið útbúnir í samræmi við lög og reglur. Pálmi fór með skuldabréfið í Glitni og lagði það að veði fyrir tveggja og hálfs milljarða króna láni sem hann fékk greitt út í peningum. Á þeim tíma var Baugur Jóns Ásgeirs í miklum vanskilum við Glitni Jóns Ásgeirs, en skuldabréfið þótti samt sem áður fullnægjandi trygging. Hlutabréfin hurfu síðar úr Baugi yfir í önnur félög Jóns Ásgeirs en allir gjalddagar voru framlengdir inn í framtíðina. Félögin þrjú í þessari fléttu fóru öll á hausinn eitt af öðru, Glitnir, Baugur og Fons. Þessa sögu má lesa úr lánasamningum, viðaukum og allskyns skjölum sem fréttastofa hefur undir höndum.
Allar skuldaviðurkenningar liggja ógreiddar í búum hinna gjaldþrota fyrirtækja. Einu alvöru peningarnir í þessum viðskiptum voru 2500 milljónir króna, sem fóru úr Glitni og í hendur Pálma Haraldssonar, en þeir peningar finnast hins vegar hvergi.
Frétt 2:
Ekki verður hægt að ganga að Pálma Haraldssyni vegna gjaldþrots Fons, þar sem hann er ekki í persónulegum ábyrgðum. Kröfur í þrotabú félagsins nema 38 milljörðum króna og ljóst að stór hluti tapast. Pálmi segist geta gert grein fyrir því hvað varð um tveggja og hálfs milljarðs króna ógreitt lán frá Glitni.
Fréttastofa sagði frá því gær að 2.500 milljónir króna sem Pálmi Haraldsson fékk lánaðar hjá Glitni fyrir hrun virðast gufaðar upp í flókinni viðskiptafléttu. Lögmaður Pálma hefur hótað fréttamanni málsókn, verði fréttin ekki dregin til baka og beðist afsökunar. Pálmi segir að féð hafi verið notað til að greiða lán Fons hjá Landsbankanum og kaup á sjóðsbréfum Glitnis og hefur látið fréttastofu í té færslunúmer þessu til sönnunar. Ómögulegt er hins vegar út frá þeim að staðfesta orð Pálma. Fréttastofa hafði í gær eftir heimildarmönnum, sem hún metur áreiðanlega, að féð virðist hafa horfið og finnist ekki í þrotabúi Fons.
Þeir hafa staðfest það aftur í dag. Lánið hefur aldrei verið borgað. Af frétt gærdagsins hefði mátt skilja að Pálmi hafi sjálfur tekið umrætt 2.500 milljóna lán persónulega, en ekki eignarhaldsfélag hans, Fons, sem nú er í skiptameðferð. Hér með er áréttað að Fons tók lánið, en Pálmi var þar aðaleigandi, annar tveggja prókúruhafa og einn skráður í framkvæmdastjórn, samkvæmt fyrirtækjaskrá.
Kröfur í þrotabú Fons nema um 38 milljörðum króna og ólíklegt að nokkuð fáist upp í almennar kröfur.
Pálmi Haraldsson var hins vegar ekki í neinum persónulegum ábyrgðum og því fellur ekki blettur á hans kennitölu við gjaldþrot Fons. Hann á enn miklar eignir víða um lönd í gegnum önnur félög sín.
Fyrirtækjaveldi Pálma virðist hafa fengið góða fyrirgreiðslu hjá Glitni fyrir hrun. Fréttastofa hefur undir höndum gögn um fjögur lán sem tekin voru frá því í desember 2007 og fram á mitt ár 2008.
Samanlögð upphæð þeirra nemur um 22 milljörðum króna. Þrotabú Glitnis gerir tæplega 24 milljarða króna kröfu í þrotabú Fons og fyrirséð er að það muni taka milljarðaskell. Títtrætt 2.500 milljóna lán hefur aldrei verið greitt og féð finnst ekki í þrotabúi Fons.
Frétt 3:
Eignarhaldsfélaginu Sundi var tryggt með leynisamningi við Baug að það gæti losað sig við fimmtungs hlut sinn í Northen Travel Holding á hærra verði en hann var keyptur. Að auki fékk Sund sérstaka þóknun fyrir viðvikið, samtals 475 milljónir króna.
Í desember 2006 seldi FL-Group lággjaldaflugfélagið Sterling fyrir 20 milljarða inn í nýtt félag, Northern Travel Holding. Það var í eigu stórra hluthafa Glitnis, seljandans FL, og Fons Pálma Haraldssonar og síðan Sunds, sem var í eigu fjölskyldu Óla heitins í Olís. Hið síðastnefnda lagði til 2500 milljónir og eignaðist um 22% í nýja félaginu. Baugur, Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, skuldbatt sig jafnframt til að kaupa aftur bréfin af Sundi, samkvæmt leynilegum baksamningi. Fons stofnaði svo nýtt félag 2008, M21 sem fékk lán hjá Glitni til að kaupa Sunds-bréfin, fyrir 2750 milljónir. Hlutabréfin sjálf voru látin duga sem veð og lánið er enn ógreitt. Sund fékk að auki sérstaka 222 milljóna króna þóknun fyrir ómakið. Mál þetta er til rannsóknar hjá yfirvöldum. Fons bólgnaði út og greiddi eigendum sínum rúma fjóra milljarða í arð, en Fons, Northern Travel Holdins, Baugur og Glitnir eru nú öll farin á hausinn. Skiptastjóra Fons hefur tekist að rekja slóð milljarðanna fjögurra til Lúxemborgar, en síðan ekki söguna meir. Um þá snýst eitt fjölmargra riftunarmála sem hann hefur höfðað. Þetta má allt saman lesa út úr skýrslu endurskoðenda, leynisamningnum sjálfum, lánasamningum og fleiri skjölum. Allt var þetta hluti mikillar viðskiptafléttu þar sem Sterling flugfélagið gekk ítrekað kaupum og sölu, og allir virðast hafa grætt, ja nema Glitnir.
Eftirmáli, þulur les: Ekki náðist í Pálma Haraldsson við vinnslu þessarar fréttar og Jón Ásgeir Jóhannesson vildi lítið tjá sig um málið.
Birt: 10. apríl, 2010 í Fjölmiðlar.
Athugasemdir: Segðu
Þegar Vilhjálmur Bjarnason gerði það í gærkvöldi sem marga hefur langað að gera, en ekki látið verða af, vantaði aðeins eitt til að fullkomna þessa sérkennilegu verðlaunaveitingu fyrir sigur í Útsvarinu. Gjafabréfið frá Iceland Express afhenti nefnilega Sigmar Guðmundsson sem opnaði sig í DV nýlega um hórerí á annarri sjónvarpsstöð. En slíkt fyrirfinnst auðvitað ekki á RÚV, nema kannski á Rás 2.
Þarna hefði starfsfélagi hans, Svavar Halldórsson, átt að vera viðstaddur, helst afhenda gjafabréfið frá manninum sem hefur kært hann, til að fullkomna fáránleikann.