Hestakvefið - aðgerða er þörf

 

Sýnum samstöðu

 Þessi grein  eftir Jakob S. Þórarinsson sem birtist á Hestafréttum er vissulega afar þörf ábending til allrar sem málið varðar.

Hvað er í gangi og hvers vegna?

Hvað ætlar ráðherra að leggja til í þessu stórhættulega máli?

Hvers vegna eru ekki nú þegar settar nægar upphæðir til að bera uppi kostnað við að rannsaka þessa kvefpest eins vel og mögulegt er.

Hvað eru menn að hugsa?

Kæruleysið er alveg hryllilegt.

Lítum á hvernig menn haga sér þegar riðuveiki gengur yfir á bóndabæ.  Allt fé skorið eins og það sé alveg sjálfsagt.

Nú blasir við undarleg og óhugnanleg pest í hrossunum okkar og þá á bara að bíða átektar og sjá hvernig sú pest þróast.

Hvers konar heimska er þetta eiginlega?

Er einhver að hugsa eða eru menn gjörsamlega heiladauðir?

 


Íslandsstofa - Umboðsmaður skuldara - Framkvæmdastjóri Íbúðalánasjóðs

Þá er lokið málinu um Umboðsmann skuldara - með ágætis niðurstöðu.  Ásta S. Helgadóttir hefur verið skipuð í það (vonandi) góða embætti.

Óska Ástu til hamingju með starfið og vona að henni og samstarfsfólki eigi eftir að vegna vel sem og því fólki sem til þeirra leita.

Þá er vonandi að Árni Páll  skoði hvað hann hefði betur gert og fari eftirleiðis af varkárni og sanngirni í öll mál sem á hans borð rata.

Ráðning Jóns Ásbergssonar í stöðu framkvæmdastjóra Íslandsstofu er til umfjöllunar í blöðum í dag sbr. Mogga bls. 4 (Fréttir) 

 Þórólfur Árnason var meðal umsækjenda um þá stöðu og telur það ferli allt hið sérkennilegast leikrit.  30 umsóknir og 3 viðtöl.  Jú eitthvað er það undarlegt. Friðrik Pálsson formaður stjórnar Íslandsstofu er skv. upplýsingum í blöðum góður kunningi Jóns til margra ára.  Það er ekki snyrtilega staðið að verki að víkja ekki sæti þegar svo er um hnúta búið. 

Ekki ætla ég að efast um hæfni Jóns til þessa starfs.  Hitt veit ég að Þórólfur er mætur maður og afar vel hæfur til stjórnunarstarfa.

Þórolfur er bróðir Árna Páls ráðherra, sem svo sannarlega hefur verið ærið mistækur í sínum verkum.

Það þýðir þó engan veginn að bróðir hans eigi að gjalda fyrir það.  Hvorki pólitík né vensl  né vinskapur eiga að ráða stöðuveitingum hins opinbera. 

Þess vegna langar mig líka til að benda á stöðuna í máli framkvæmdastjóra Íbúðalánasjóðs.  Hvað endemis vandræðagangur er þetta? Hvers vegna er ekki ráðið í þessa stöðu?  Hvers vegna þessi bið?

Nú skal Árni Páll sýni í verki að hann lætur ekki sömu vitleysuna gerast aftur. 

 

 

 


Bornir á (ríkisstjórnar)höndum

Merkilegt er að vera vitni að hegðun ráðherra í þessari ríkisstjórn þegar mannaráðningar eru til umfjöllunar.  Nú síðast var það Runólfur Ágústsson sem áður var rektor háskólans á Bifröst.  Hann var valinn(!) Umboðsmaður skuldara.  Það er verðandi ríkisstofnun en starfsemi ráðgjafastofu um fjármál heimilana mun renna inn í embætti umboðsmannsins þegar það tekur til starfa þann 1. ágúst n.k.

Ef eitthvað er skandal þá er það þetta. 

Ásta S. Helgadóttir forstöðumaður Ráðgjafastofu um fjármál heimilanna sótti eðlilega um þessa stöðu og væri vel að henni komin.

Nei.  Sunny boy sá til þess að kratakerfið færi ekki út af veginum hreina. Það er alveg stórundarlegt hve þessi flokkur sem kennir sig við jafnrétti er lunkinn við að hygla sínum. 

Rektorinn fyrrverandi fór frá Bifröst með lítilli reisn.  Reyndar fjallar DV um þetta mál í blaðinu í gær undir fyrirsögninni:  Afskrifa millljónaskuldir Runólfs.

Nú mun  þessi skuldakóngur  fá 900 þús. í mánaðarlaun og sennilega kemur eitthvað meira til.

Og enn og aftur minni ég á eftirlætis krataprinsinn hann Einar Karl Haraldsson, sem bara verður að fá a.m.k. 700 þús í laun á mánuði.  Sem er svona eins og sumum öryrkum og ellilífeyrisþegum er gert að greiða til baka til TR vegna "ofgreiðslu"  fyrir bætur undanfarið ár.

 Ok.  Sumir segja þetta er bara eitthvað sem þetta fólk átti ekki að fá!   

Ekki er litið til þess þegar fólk hefur greitt til  TR áratugum saman af launum sínum eins og margir ellilífeyrisþegar hafa gert. 

Hvers vegna hegðar þessi ríkisstjórn sér eins og þar sitji eintóm fífl? (hmmm)

Stjórnmálamenn sem hrósuðu gegnsæi og góðri stjórnsýslu.   Og gáfu fyrirheit um að standa við slíkt.

Nú horfum við á þessar  manneskjur ráða fólk eftir geðþótta og ganga framhjá vel hæfu fólki.  Og það sem er ekki betra:  Búa til störf fyrir flokksómaga eins og t.d. Einar Karl, sem verður sér til skammar með því að liggja á spena meðan þúsundir manna og kvenna búa við atvinnuleysi.


Er þetta ekki magnað?

 

Enn engar skorður við áframhaldandi eignarhlut Jóhannesar í Högum

Áframhaldandi eignarhlutur Jóhannesar Jónssonar í Högum er sögð lykilatriði í fjárhagslegri endurskipulagningu fyrirtækisins og hafa engar skorður verið settar á hann og fjölskylda hans geti aftur eignast fyrirtækið. Sagt var frá þessu í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins og var vísað í kynningu á fyrirhuguðu útboði í því sambandi.

Reynsla Jóhannesar er enn sögð lykilatriði til að tryggja framtíð Haga. Þetta kom fram á fundi Arion banka með mögulegum fjárfestum á dögunum.

Bónusfjölskyldan tapaði Högum í fang Arion banka sem ætlar að skrá fyrirtækið á markað í haust. Stjórnendur, -með stjórnarformanninn Jóhannes Jónsson í broddi fylkingar, -hafa forkaupsrétt að fimmtán prósenta hlut. Hitt verður selt í útboði í kauphöllinni.

Nýr bankastjóri Arion, Höskuldur H. Ólafsson vildi ekki veita viðtal vegna þessara mála þrátt fyrir nokkurra vikna eftirgang. Eina svar bankans er klifun á því að skráningin frestist fram á haust. (EYJAN)

 

Hvers vegna í ósköpunum á þetta að viðgangast?

Hvað þá með þær mörgu fjölskyldur sem missa íbúð sína á nauðungaruppboði fyrir brotabrot af skuldum Bónusfjölskyldunnar? Já bílinn, heimilið, æruna, hamingjuna, fjölskylduna og jafnvel lífið.

Við horfum uppá það mánuð eftir mánuð að fólk engist í örvæntingu meðan ekkert er að gert af hálfu "hreinu vinstri stjórnarinnar" þeim til bjargar.

Þessi andstyggilega, lágkúrulega og glæpsamlega  mismunun á almennum borgurum og svokölluðum auðmönnum verður ekki líðandi lengur.

Ömurlegt  er að Jón Ásgeir Jóhannesson er hrikalega óheiðarlegur maður og óforskammaður í sínum svokölluðu viðskiptum.  Mér virðist þau flokkast undir hreina Mafíutakta eins og maður les um og sér t.d. í kvikmyndum. 

Sjáum t.d. hvernig honum tekst að koma með milljarð inn í 365 mitt í öllu þessu fárviðri þegar er reynt að frysta eignir hans um allan heim.  Er þetta eðlilegt?  Og Arionbanki virðist vera í lúkunum  á honum.

Er jafnvel einhverskonar Mafía sem ræður á Íslandi nú um stundir?  Sú Mafía teygir arma sína inn á Alþingi, í ríkisstjórnina, bankana og fjármagnsfyrirtækin og víðar.

Hvers vegna er svona brýnt að viðhalda ánauðinni á hinum almennu íslensku skuldaþrælum? 

Hvers vegna er skuldurunum att saman og kynt undir öfund þegar útlit var fyrir að myntkörfuþrælarnir fengju leiðréttingu mála sinna?

Auðvitað eiga aðrir skuldaþrælar  að fá leiðréttingu sinna mála eftir að gengistryggðu lánin hafa verið leiðrétt á sanngjarnan hátt þannig að raunhæft sé að fólk geti greitt skuldir sínar.  Þá miða ég við að dómur er fallinn í þessu máli og best að sýna þjóðinni að yfirvöld taki mark á honum.  Leiðrétting á öðrum lánum getur verið afturvirk.  Þó þeir þufti að bíða þá verður það ekki óréttlátt.

Ég endurtek það sem ég hef margoft bloggað um hér að það er alls ekki eðlilegt að lánveitendur eigi að sleppa í gróða frá slíkum hremmingum sem þeim sem yfir okkur öll hafa gengið.  Það má alveg skipta þessu á milli fólks.

Með hvaða launþega öðrum en Einar Karli  stendur ríkisstjórnin ?  Við heimili þess manns  er Skjaldborgin í allri sinni dýrð.


Kaffi, te eða peninga - Saga klass og hinir

Elsku hjartans gráðugu manneskjur.  Megi Mammon vera ykkur náðugur og veita ykkur hlutdeild í öllum þeim gróða sem hugsanlega er hægt að grípa gráðugum höndum.

Þið skýlið ykkur á bak við nöfn fyrirtækja, kennitölu sem breytist eftir þörfum og fleiri ógeðfelldum aðferðum.

Með ykkur hafið þið fjölda manns sem líka græða þegar þið græðir.  Bara ekki eins hroðalega mikið en samt..  Amk. telur það fólk  borgar sig að eltast við ykkur og vera jáandi út í eitt.

Jafnvel manneskjur í hæstu hæðinum virðast lúta í duft (gras) þegar þið hristið pyngjuna.

Hvað á maður að halda þegar þessi umræða og þessi viðbrögð koma upp í þjóðfélaginu þegar loksins fellur dómur í myntkörfulánunum.

Í stað þess að vera með áætlun og taka af festu á þessum málum fer allt úr skorðum og út og suður.  Enginn virðist vita neitt í sinn haus.  Eða sumir vita jafnvel sérlega fátt eða jafnvel alls ekki neitt.

Ríkisstjórn hvað?????  Eruð þið þarna?  Jóhanna!  Það eru farþegar að biðja um smáþjónustu!  Í öllum sætaröðum. Kommon, flýttu þér að servera liðið áður en það verður vitlaust.

 


Myntkörfulán

Ó minn guð og Pétur alvitri alþingismaður.

Við bruðlarar og eyðsluklær. 

Hvað höfum við gert löndum okkar.

Guði sé lof að glæponarnir okkar hafa fengið milljarða slegna af í skuldabankanum.  Og það ofan á þann makalausa gjörning að hafa stolið af okkur hinum í krafti þess að "eiga" bankann".

Og ég tala ekki um þá náð og miskunn að þessir sömu "sómamenn" hafa haft möguleika á að kaupa virt og stöndug íslensk fyrirtæki og éta innúr þeim hratt og örugglega.

Og hvert hefur þessi innmatur farið:   Sag mir wo das Geld ist , wo ist das geblieben?

Loksins þegar dómur hefur fallið í þessu andstyggilega máli eru þegar uppi háværar, falskar raddir þeirra sem ekki þola að nokkur manneskja fái að njóta réttlætis.

Lítum til þess sem Marinó Njálsson skrifar. 

Fyrir ekki svo löngu  síðan birtist  sú fregn að bankarnir væru með íþyngjandi magn fjár.  Halló! Hvar er það nú?  Síðustu fegnir herma að bankarnir muni síga til hruns gangi eftir réttur lántakenda skv. dómnum fræga..

Þessir sömu bankar hafa þolað það að afskrifa milljarða fyrir skítabarónana og veita þeim fyrirtækin aftur á silfurfati.  Sbr. Ólaf Ólafsson og við bíðum þess að sjá hvað Arion banki gerir í máli Bónusfeðga.

Viðbjóður hvernig Alþingi afgreiddi Björgólf nú fyrir stuttu síðan.

Nú veina þessir sömu ógeðslegu bankar þegar kemur að réttlæti fyrir borgara þessa lands. 

Er ekki löngu kominn tími til að taka í taumana.

HVAÐ ER AÐ YKKUR  BANKAMENN?

 


Fyrir vestan á vondum vegi

Við vorum fyrir vestan þessa sætu, löngu sumardaga.  17. júní er verulega vænn og góður dagur í faðmi fjalla vestra. Við nutum hans vel úti allan daginn við leik og störf.

Vegurinn vestur er ekki góður.  Þegar Vestfjarðavegur tekur við þá tekur hreinlega martröð öll völd.  Bíllinn hristist, hendist til á veginum, rásar og reikar, sjokkeraður yfir þessum vondu flötum sem honum er ætlað að aka eftir.  Bílstjóri og farþegar, tvífættir sem fjórfættir eru miður sín og geta varla mælt/gelt.  Alls kostar ómögulegt.  Og boðað hefur verið að ekki skuli lagt í neinar viðgerðir á þessum vegum vestra.  Alltof dýrt. Að sögn.

Spurt er:  Hversu  miklu dýrara er að vanrækja þessa vegi en halda þeim við?

Er ekki augljóst að fólkinu sem reynir að halda uppi þjónustu við ferðamenn er lítill gaumur gefinn?  Hvernig er hægt að búast við að ferðamenn mæta á Vestfirði þegar almælt er að þar séu vegir með afbrigðum slæmir og varla um þá akandi?

Hvernig er skipulagi viðgerð/viðhalds á vegum vestra fyrir komið?  Hvar á forgangslista Vegagerðar eru þessir vegir?

Grjótið stendur uppúr vegum, ofaníburður er fyrir löngu farinn fj.. til.  Það verður ekki langt þangað til þessir vegir verða ófærir venjulegum bílum.  Þar að auki fælir það alla frá að aka þessa leið sem lesa, heyra og sjá að vegurinn er slysagildra og hættulegur að ferðast um. 

Þetta er skömm.   Þarna  ber að taka til hendi nú þegar.  Vestfirðingar eiga það skilið að vegir vestra séu bættir svo þar megi aka um í þokkalegu öryggi  eins og annarsstaðar á landinu.


Sumarið er komið

Það er staðreynd.  Sumarið er komið.  Og við fögnum því.  Vonandi bera allir gæfu til þess að njóta sumardaga. " Sætra, langra sumardaga. Folöldin þá fara á kreik og fuglinn syngur og kýrnar leika við hvurn sinn fingur."

Það rann upp fyrir mér ljós þegar ég fór norður í Haganesvík í örfrí, að sumarið er komið.  Ótrúlega var gott að dvelja þar við fuglasöng allan sólarhringinn og fegurð fjalla og víkur, hóla og hæða.

Mér tókst að láta vera að fylgjast með fréttum þennan stutta tíma og það var mikil hvíld og góð.

Sennilega tekur meira á að vera þjóðfélagsþegn á landinu okkar nú en nokkru sinni fyrr.  Áhyggjur, sorg og eftirsjá.

Á hinn bóginn vil ég trúa að við höfum það í hendi okkar að gera lífið betra og fallegra með því að vera staðföst:  Krefjast þess að allt sé á borðinu.  Bankastjórnendur verði að standa fyrir sínum gjörðum, gera grein fyrir sínum verkum. Já standa skil á því sem þeir aðhafast.  Það er komið nóg af svikum í bankageiranum.

Við viljum EKKI að glæponum sé hyglað.  Þeim mönnum sem átu innan úr hverju fyrirtækinu á fætur öðru á svívirðilegan hátt. 

Verði það staðreynd að bankarnir ætli enn að svíkja þá er um eitt að ræða:  Taka upp vopn og berjast þar til réttlætinu er fullnægt.

Það er alltof marg óhreint í starfsemi bankanna sem ekki er hægt að þola.  Og ráðherra bankamála er vita máttlaus maður.

En nú aftur að sumrinu:  Bráðum kemur betri tíð með blóm í haga, sæta, langa sumardaga..Joyful


Glæpamenn

Því meira sem ég les um athæfi þeirra sem unnu/vinna í bönkum þessa lands þess meira er ég leið og sár og svekkt.

Símtalið þeirra Halldórs Bjarkars Lúðvígssonar og Lilju Steinþórsdóttur, sem birtist í Dv  þann 7. júní s.l. og var svo snilldarlega flutt í útvarpi er hrikalegt.

Ég minnist þess og er viss um að margir hafa sömu sögu að segja að þegar tilkynnt var um viðskipti Al-Thani við Kaupþing varð mér á orði:  undarlegt er þetta í alla staði og ekki er góð lyktin.

Og hvað kemur í ljós.  Algjör gjörsamlegur hryllilegur glæpsamlegur verknaður.

Maður með barnsandlit er sennilega algjör glæpon.  Og Sigurður Einarsson er sennilega ennþá verri. 

Hvað kom þessum ungu mönnum á þessa hryllilegu braut?

Þá vil ég enn og aftur gangrýna að Arion banki hylmi yfir með afbrotamanninum Ólafi Ólafssyn.

Í fullri alvöru þá spyr ég Arion bankamenn:  Hvað gengur ykkur til?  Er ekki komið nóg af svikum og prettum.

Græðgin er sennilega versta svipan sem lendir á mönnum.  Hún fær aldrei nóg. Er sífellt að krefja um meira og meira.  Eftir því sem árangurinn verður meiri þá aukast kröfurnar um enn meira. 

Í trylltum dansi kringum gullkálfinn hverfa mönnum öll heiðarleg viðmið.  Krafan um meiri gróða verður öllu öðru yfirsterkari og samkeppni við aðra í sama dansi verður víma og sterkari víma og ræður  endanlega öllu.  Skynsemi og yfirvegun, heiðarlegar tilfinningar og atgát hverfa í gullvímunni.

 


Litið til hrossa í haganum

Fór fyrir stuttu að líta á hestana í haganum.  Þangað fóru þeir óvenju snemma.  Ástæðan kvefpestin vonda sem hrjáir hestana okkar.  Menn vona og trúa að þeim líði betur í góða loftinu í sveitinni en á húsi.

AM_100607_7500

Ósköp var nú gott að sjá þá og klappa þeim.  Finna ilminn sem leggur frá þeim og hlýjuna sem streymir frá þeim.

Tók með mér myndavél og lék með hana.  Þeir eru  fallegasta mótif sem til er.  Nema ef vera skyldi barnabörnin!

Verulega vont var að heyra og sjá að hestarnir voru sumir lasnir og hóstuðu aftur og aftur.  Aðrir voru aftur algjörlega sprækir og virtust ekki kenna sér neins meins.  En þarna eru þeir allir saman,  sumir veikir aðrir ekki.  Hvernig fer það?  Halda þeir áfram að smita hver annan eða dregur úr þessari leiðinda pest uns hún hverfur alveg.

Ekki þori ég að setja unga folann í framhaldstamningu á reiðhestabraut.  Hann er með ansi blautan nebba þó ekki virðist hann laslegur að sjá.  Sennilega best að bíða og sjá hvernig þessi pest gengur yfir (vonandi) og þá geta menn farið að hreyfa hrossin og ætla þeim venjuleg verkefni. 

Og þá lít ég til alþingismanna og ráðherra.  Í þeirra haga.  Sem eru hvorki  sérlega grænir né gróskumiklir.

Þar er ekki heilsubrestur en siðferðisbrestur gæti hugsanlega gert vart við sig.  Einhverskonar "gate".  Forsætisráðherra er kominn í ógöngur sýnist mér.  Már Guðmundsson seðlabankastjóri var ráðinn með loforði um hærri laun og það loforð hlaut að koma úr forsætisráðuneytinu.  Eða hvað?  Þetta er orðin lygileg lygasaga.

Styrkjamál þingmanna halda áfram að vera deiluefni.  Sumum finnst að menn eigi allir að vera undir sama hatti hvort sem þeir hafa þegið fmm hundruð þúsund eða 25 milljónir. 

Mál Guðlaugs Þórs er afskaplega pínlegt.  Hann á að segja af sér nú þegar, blessaður maðurinn.  Hann nýtur því miður varla nokkurs trausts lengur.

Furðu gegnir einnig að sjá hvernig menn höndla með sveitarstjórnir/bæjarstjórnir.  Jafnvel í Hafnarfirði þar sem bæjarstjórinn kollféll er honum komið fyrir á stólnum á ný.

Og Árni Páll kemur enn á ný með undarlegt útspil.  Hann ætti að reyna að ná sambandi við grasrótina hann Árni Páll. 

Ekki verður fullyrt að hlýjan steymi frá þingmönnum og ráðherrum til okkar þjóðarinnar.  Það er næstum því ótrúlegt hve lausir þeir eru við að setja sig í spor landsmanna og taka upp baráttu í þeirra þágu um bætt kjör og sanngjarna meðferð mála sem fólk þarf að glíma við nú um stundir.

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband