5.10.2009 | 22:53
Ferð í fuglafriðland við Grunnafjörð
Ferð Landverndar, Fuglaverndar og Græna netsins í fuglafriðlandið við Grunnafjörð.
Grunnafjörður.
Grunnafjörður var gerður að friðlandi árið 1994 og samþykktur sem
Ramsarsvæði 1996, alls 14,7 km2. Er fjörðurinn eina Ramsarsvæðið á Íslandi sem liggur að sjó. Víðlendar leirur eru í Grunnafirði um 12,5 km2og má segja að fjörðurinn sé frekar leirulón en eiginlegur fjörður. Leirur eru gjarnan auðugar af burstaormum svo sem sandmaðki og leiruskera og fer það eftir seltumagni hvaða tegund er ríkjandi. Nokkuð er um krækling og sandskel, fjöruflær og lónafló eru algengar.
Margir vaðfuglar, svo sem sendlingur, lóuþræll, sandlóa og tjaldur; byggja tilveru sína á lífríki leiranna. Í firðinum halda til margir æðarfuglar. Margæs hefur viðkomu í Grunnafirði (um 25 % stofnsins) á ferðum sínum frá meginlandi Evrópu til heimsk utasvæðanna vor og haust en fjörðurinn er sérstaklega mikilvægur fyrir ýmsa fargesti auk margæsar t.d. rauðbrysting (1-2 5 af stofninum). Margar fuglategundir treysta á Grunnafjörð á veturna og má þar meðal annars nefna tjaldinn. Um ósinn synda laxar á leið í Laxá í Leirársveit.
Við fórum að skoða þennan merkilega fjörð laugardaginn 3. október s.l. Fararstjóri var Einar Þorleifsson frá Fuglavernd, Sigrún Pálsdóttir frá Landvernd og Mörður Árnason hélt fróðlegt og skemmtilegt erindi um fyrirhugaðar vegalagningu/ vangaveltur þar um í friðlandinu og kom víða við.
Þetta var frábærilega skemmtileg ferð og fróðleg.
Kona í hópnum hafði alist þarna upp og sagði okkur frá sinubruna sem varð á Lambhaganesi. Hún var þá barn að aldri en þetta hafði gífurlega mikil áhrif á hana og sérstaklega að sjá að sumir fuglarnir höfðu ekki yfirgefið hreiður sínu og brunnið til bana.
Einar miðlaði okkur af þekkingu sinni og hann var með skóp meðferðis þar sem allir höfðu tækifæri til að skoða fuglana betur en í sjónauka. Margæsir, brandendur, mikill fjöldi stokkanda og tjalda voru áberandi. Heiðlóur í vetrarbúningi, stelkar, lóuþrælar, fjöruspói einn og sér setti svip sinn á lífið þarna.
Einar vakti athygli á að við höfum verið spör á Ramsarsvæði og lét í ljós þá skoðun að við gætum auðveldega haft a.m.k. 70 slík svæði á landinu okkar. Mig minnir að Danir eigi 27 svæði og Grænlendingar 9, Svíar 57 ef ég man rétt en nú ætla ég ekki að fullyrða neitt.( Léttur Alzheimer án þess að ég hafi fengið sérfræðing frá BH/Hreyfingunni til að greina það.)
Við landarnir ættum að skoða okkar gang betur þar sem lýtur að friðun svæða og verndun fugla. Og standa við það.
Í fjarðarmynninu hafa verið lagðar rafmagnslínur. Þær drepa óhugnanlega marga fugla, sem fljúga inn fjörðinn í kvöldhúminu og rökkrinu dægrin löng. Það ætti ekki að vera ofverkið að koma þessum drápslínum í jörð.
Athugasemdir
Ramsarsvæði önnur: Þjórsárver og Mývatn og Laxá.
Auður Matthíasdóttir, 5.10.2009 kl. 23:42
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.