18.1.2009 | 22:54
Með reistan makka
Þá eru hestarnir komnir á hús. Fyrstur kom Flóki, á þriðjudaginn og síðan hinir á föstudag. Mikil er gleðin og ánægjan með endurfundina. Þessir brúneygðu, fallegu fákar eru sannkallaðir gleðigjafar. Þeir eru svo ótrúlega ólíkir persónuleikar. Það er gaman að fylgjast með hegðun þeirra í gerðinu og síðan þegar þeir eru komnir á sinn stað í hesthúsinu.
Flóki, sem er þriggja vetra, verður fjögra vetra í vor, er sonur Áls frá Byrgisskarði og Þyrlu frá Röðli. Hann hefur alist upp í sinni fæðingarsveit. Fór sem sagt í fyrsta sinn að heiman í vikunni til þess að hitta eiganda sinn og vera í hesthúsinu með "bræðrum sínum". Hann hef ég átt frá því hann var folald en hann er fæddur bóndanum á Röðli í Húnavatnssýslu.
Flóki stóð með reistan makka í gerðinu og skoðaði umhverfið. Öruggur með sig og yfirvegaður. Mér þótti merkilegt að sjá hve rólegur þessi nánast ótamdi hestur er. Bóndinn á Röðli hefur vissulega farið um hann nærfærnum höndum og kennt honum undirstöðuatriði almennra kurteisissiða hesta. Það skilar sér nú. Hann leyfði mér að setja á sig stallmúl án nokkurs hiks og sýndi mér þolinmæði. Ég er ansans klaufi að koma stallmúl á hest. Spyrjið þið hestana mína!
Nú er framundan dýralæknisskoðun, ormalyfjagjöf, skaufahreinsun, raspa tennur, síðan járningar og þá útreiðar og þjálfun. Hey er nóg í hlöðunni, spænir og fata með vítamínum og steinefnum. Tunna fyrir vatn til að hafa í gerðinu en það á eftir að kaupa saltstein. Hvítan.
Flóki á að fara í tamningu en ég bíð eftir svari varðandi hvenær tamningamaðurinn getur tekið hann.
Við hesthúsið í skini sólar.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.