24.11.2010 | 23:56
Er íslenskt þjóðfélag svikamylla?
Hvað er í gangi í okkar smáa þjóðfélagi?
Hvers vegna gengur ekki að finna góða leið til að hjálpa heimilunum í landinu?
Er það vegna þess að bankar og lánastofnanir þola ekki slíkt högg sem það væri ef allir fá t.d. sömu upphæð eftirgefna.
Af hverju er í lagi að almenningur fái högg en ekki bankar og slíkir?
Hvers vegna starfa bankarnir eins og þeir hafa ekki lært nokkurn skapaðan hlut af hruninu?
Hvers vegna gefa þessir bankar eftir milljarða til bjargar "auðmönnum" en þjarma að almennum skuldurum sem þó skulda brotabrot af því sem gefið er eftir til þessa fólks.
Hvers vegna fá menn eins og t.d. Jóhannes áður kenndur við Bónus að búa óáreittur í húsi sem hann á ekki en skuldsett upp í rjáfur. Og kaupa að sögn fyrirtæki í Færeyjum svo eitthvað sé nefnt.
Hvers vegna getur mamma skuldsett til dauðadags keypt hús af syni sínum og eiginkona keypt fjallahöll af manni sínum án þess að menn blási úr nös? Hmmm kannski einhver blási í nös...
Hvers vegna getur maður haldið áfram að reka World Class án þess að eiga fyrir því?
Hvernig er hægt að éta pizzafyrirtæki innanfrá þegar svona mikill matur er á boðstólum?
Hvers vegna í ósköpunum er unað við það að fólk standi í biðröðum til að fá mat?
Hvar er velferðarstjórnin stödd? Í skýjunum á hraðri leið til einskis..
Hvers vegna er verið að undirbúa byggingu glæsisjúkrahúss á meðan niðurskurður stefnir heibrigðiskerfi okkar í stórhættu? Öll skynsemi segir okkur að smáu sjukrahúsinu eru algjörlega nauðsynleg og veita sjúklingum öryggi.
Bygging Hörpu svokölluðu er frábært dæmi um undarlega ráðstöfun á fjármunum þegar almenn skynsemi segir að það verði að bíða betri tíma.
Eða vilja ekki landsmenn öryggi í heilbrigðisþjónustu?
Og mennun ungviðisins í góðum farvegi en ekki niðurskurðar sem leiðir til ills.
Hvers vegna er Landeyjahöfn yfirleitt til? Ef hún er þá til? Nógu margir bentu á hve arfavitlaus þessi staðsetning væri. Og nú moka menn sandi eins og ekkert sé sjálfsagðra já og ætla að breyta farvegi Markarfljóts til að "redda" málinu.
Skattar og álögur eru að sliga okkur og samt er ekkert lát þar á. Eygi fjármálaráðherra einhverja summu sama hve smá hún er t.d. hjá ellilífeyrisþegum þá er allt gert til að ná henni.
Fals stjórnvalda þegar rætt er um aðild að ESB er hræðilegur skrípaleikur. Og þvílíkt rugl.
Gæti bent á kosningu til stjórnlagaþings sem dæmi um enn eina hringavitleysuna.
Við höfum 63 þingmenn á alveg þokkalegum launum. Úr þeim hópi ætti að vera hægt að setja nokkra í þetta verkefni og það fyrir miklu minni peninga en þessi óráðsía kostar okkur. Það eru til margar og flottar aðferðir til að virkja almenning sem eru betri en þessi rándýra og kjánalega aðferð.
Er kannski verið að láta almenning hafa eitthvað fyrir stafni til að horft sé frá allri hringavitleysunni?
Mikið erum við heppin að eiga þetta frábæra land/eyju að föðurlandi. Kostirnir við að eiga hér heima eru svo margir. Þess vegna eigum við að gera kröfu til þess að fá viti borna stjórnun á hlutunum og almenna tiltekt í þeim stofnunum sem glatað hafa trausti almennings.
Það er brýnt að nú fari að rofa til í allrr þeirri ringulreið sem hér ríkir.
Óskandi er að þjóðin fái stjórn sem stendur sig.
Og það sem fyrst.
Athugasemdir
góður pistill sem ég tek heilshugar undir.. íslenskt þjóðfélag er gegnrotin svikamylla.
Óskar Þorkelsson, 25.11.2010 kl. 05:33
Sæll Óskar.
Þakka þér innlitið. Sennilega erum við afskaplega sammála en það er sorglegt að þurfa að horfast í augu við þessa staðreynd um þjóðfélag okkar.
Auður Matthíasdóttir, 30.11.2010 kl. 23:48
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.