20.6.2010 | 22:42
Fyrir vestan á vondum vegi
Við vorum fyrir vestan þessa sætu, löngu sumardaga. 17. júní er verulega vænn og góður dagur í faðmi fjalla vestra. Við nutum hans vel úti allan daginn við leik og störf.
Vegurinn vestur er ekki góður. Þegar Vestfjarðavegur tekur við þá tekur hreinlega martröð öll völd. Bíllinn hristist, hendist til á veginum, rásar og reikar, sjokkeraður yfir þessum vondu flötum sem honum er ætlað að aka eftir. Bílstjóri og farþegar, tvífættir sem fjórfættir eru miður sín og geta varla mælt/gelt. Alls kostar ómögulegt. Og boðað hefur verið að ekki skuli lagt í neinar viðgerðir á þessum vegum vestra. Alltof dýrt. Að sögn.
Spurt er: Hversu miklu dýrara er að vanrækja þessa vegi en halda þeim við?
Er ekki augljóst að fólkinu sem reynir að halda uppi þjónustu við ferðamenn er lítill gaumur gefinn? Hvernig er hægt að búast við að ferðamenn mæta á Vestfirði þegar almælt er að þar séu vegir með afbrigðum slæmir og varla um þá akandi?
Hvernig er skipulagi viðgerð/viðhalds á vegum vestra fyrir komið? Hvar á forgangslista Vegagerðar eru þessir vegir?
Grjótið stendur uppúr vegum, ofaníburður er fyrir löngu farinn fj.. til. Það verður ekki langt þangað til þessir vegir verða ófærir venjulegum bílum. Þar að auki fælir það alla frá að aka þessa leið sem lesa, heyra og sjá að vegurinn er slysagildra og hættulegur að ferðast um.
Þetta er skömm. Þarna ber að taka til hendi nú þegar. Vestfirðingar eiga það skilið að vegir vestra séu bættir svo þar megi aka um í þokkalegu öryggi eins og annarsstaðar á landinu.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.